Föstudagurinn 20 desember var dagur litlu jólanna í Djúpavogsskóla og síðasti dagur fyrir jólafrí. Að auki við jólaskapið var þema dagsins ,,spariföt og sparinesti".
Nemendur mættu því prúðbúin og hátíðleg og voru tilbúin að gera sér glaðan dag saman.
Byrjað var á að syngja og dansa á litlju jólaballi. Í heimsókn komu elstu nemendur, Tjaldarnir, frá leikskólanum og unglingarnir sem héldu utan um stundina tóku vel á móti þeim.
Við þökkum Tjöldunum kærlega fyrir komuna, það var mjög gaman að fá þau í heimsókn.
Ólafur Eggertsson mætti með nikkuna og lék undir nokkur fjörug dans- og sönglög og endað var á smá jóladiskói. Við kunnum Ólafi bestu þakkir fyrir skemmtilega stund.
Í lokin sungu allir saman Bjart er yfir Betlehem
Að því loknu voru stofujól í öllum stofum þar sem var skipst á jólakortum og gjöfum við kertaljós og kósí, spilað saman, farið í karókí, horft á jólamyndir í rólegheitum og auk þess nýttu nemendur samveruna fyrir jólamyndatökur, spjall og fleira skemmtilegt.
Starfsfólk þakkar nemendum, og þeim sem kíktu við, fyrir ljúfan og skemmtilegan dag.
Njótið jólafrísins og hátíðanna.
Kommentare